Þung framtíð..

Ekki er úr vegi að nett þunglyndi leggist yfir mann þegar maður les það í blöðum að margir sauðfjárbændur hyggist lóga öllu sínu fé og selja heyforðann því þeir fái meira fyrir heyið en innleggið og framtíðin svo svört að betra er að breyta útihúsunum í skuldahalageymslu (tjaldvagna og fellihýsa) en að hafa þar fé á fóðrum. Þetta er svo sem það sama og gerðist hjá kúabændum fyrir einsog tveim árum síðan þegar margir freistuðust til að selja kvótann á hæsta verði sem upp hefur komið í íslenskri nautgriparækt. M.a seldi sveitungi minn kvótann og kýrnar og breytti 5 ára gömlu fjósi í skuldahalageymslu. Annar sveitungi minn segir að núna hætti um 30% bænda og hinir sem eftir verða stækki við sig. Gott og vel það getur vel verið en það er spurning hversu hátt hlutfall af þessum 30% séu sauðfjárbændur og þá hvort greinin lifi það af ef obbinn hættir. Verða þá bara eftir hobbybændur og mætt verður aukinni sölu á lambakjöti með innflutningi, því sala á lambakjöti hefur stigaukist frá ári til árs. 

Starfsystir mín ein hringdi í mig á dögunum og var þá að viðra við mig þá hugmynd sína að taka allt kjötið sitt heim og selja það beint frá bónda. Þessi starfsystir er með u.þ.b 1000 skrokka þetta haustið og sér ekki fram á það að fá nóg fyrir kjötið sitt til að greiða fyrir lánin á fjárhúsinu og þá er allt annað eftir að greiða s.s. launakostnað, fyrningar á vélum (og lán), heyforðann o.s.frv. Hún sagði mér að margir gengju um með svipaða hugmyndir í maganum. Ég er svo sem ekkert sérstaklega hissa á því að sláturleyfishafar séu eins tilbúnir að lóga fyrir bændur og pakka því og senda svo herlegheitin til þeirra aftur fyrir þá til að selja líkt og raunin virðist. Það er nú einu sinni þannig að þeir fái trúlega meira fyrir sinn snúð með þessu háttalagi en að selja sjálfir afurðirnar til kaupmanna. Því er nefnilega ekki að neyta að ákveðnir aðilar sem er stærstir á smásölumarkaði halda verðinu niðri í krafti stærðar sinnar, ekki endilega svo að það skili sér til neytanda heldur skilar það sér mest í þeirra eigin vasa. Það að láta slátra fyrir sig kostar nú um 250 krónur á kílóið með flutningi (fer eftir því hvað þarf að fara langt með kjötið). Þá er eftir að láta, eða gera sjálfur, pakka og vinna kjötið þannig að full unnið kjöt í dag beintfrábónda þarf að kosta 1750 kr. á kíló og trúlega meira fyrir bestu bitana því þeir þurfa að greiða fyrir bitana sem engin vill og bóndinn situr uppi með s.s. slög og fleira.

Ég get ekki varist því að leggjast í nett þunglyndi yfir þessu öllu saman því svo virðist sem ég fái ekki nein laun þetta árið fyrir mína vinnu og tel ég mig heppna ef ég kemst út á núlli. Því er nú einu sinni farið í velmegunar þjóðfélaginu á Íslandi að þeir sem reka herlegheitin og standa í brúnni hafa greinilega aldrei þurft að reka heimili því ef þeir hefðu reynt það mundi staðan ekki vera svona í dag. Það vita það allir sem þurfa að láta enda ná saman að forgangsröðun er númer 1,2 og 3. matur, heilbrigði, nám, samgöngur hljóta alltaf að vera það sem þarf að láta ganga fyrir öllu öðru. Við vitum nú hvernig sjálfstæðisflokkurinn gengur að einkavæða heilbrigðiskerfið þannig að það verði bara á valdi yfirstéttarfólks að leitar sér lækninga og hvernig ríkisstjórnin sveltir starstéttir innan heilbrigðisgeirans. Einnig hafa þeir nú komið grunnstigum skólakerfisins yfir á sveitafélögin, gott og vel en þeir gleymdu bara alveg að koma með fjármagnið með svo kennarastéttin er ansi svelt þannig að menntaðir kennarar leita í stórum stíl í aðrar greinar sem gefa meira í aðra hönd. Er það sem við viljum? Viljum við ekki að besta fólk sem fæst kenni börnunum okkar? Svo þarf nú ekki að hafa langa tölu um samgöngur á Íslandi en þær eru vægast sagt bagalegar í allan stað. Svo ég tali nú ekki um net og fjarskiptasambönd hér á landsbyggðinni sem er bara vondur brandari.

Ég er orðin ansi þreytt á þessum ástandi í þjóðfélaginu. Þeir sem hafa stjórnartauma í höndum hljóta að bera ábyrgð. Ég hvet því þá sem þessu landi stjórna að fara að forgangsraða svo heimilið Ísland fari ekki í hundana.
Lifið heil


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Þetta er ansi góður pistill hjá þér (ekkert hissa á því) en ég verð að viðurkenna að það þyrmir yfir mig að heyra þessa greiningu og lýsingu hjá þér. Alin upp í Búnaðarfélaginu, sem gerði ýmislegt gott þrátt fyirr að þar ynnu auðvitað mismunandi snjallir menn (fóstri minn held ég að hafi bara gett gott). Mér er hreint ekki sama hvernig þróun mála er núna.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 8.9.2008 kl. 21:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband