28.1.2008 | 17:42
Lifandi landbúnaður
Já minn landbúnaður er svo sannarlega lifandi. Gibburnar mínar voru gífurlega hressar með að komast út í morgun og viðra sig eftir allt inni hangsið vegna slæms tíðarfars. Hoppuðu þær og kröfsuðu, köstuðu upp rassinum og léku sér einsog lömb þrátt fyrir að vera í vetur ull (fyrir þá sem ekki eru vel inní sauðfjárrækt þá ganga kindurnar mínar s.s. í ullinni allan veturinn og eru heilrúnar að sumri en ekki rúnar inn í nóvember og svo snoðið tekið í mars einsog gengur og gerist almennt). Ég fór svo til tannlæknisins míns í dag en hún hefur oft verslað af mér kjöt. Hún fór að segja mér hvað hún var nú ánægð með kjötið, gott á bragðið og passlegt í fitu og ekki skemmdi fyrir hvað íslenskt lambakjöt væri nú vistvæn og heilnæm vara. Jú sagði ég það væri alveg rétt en því miður er það að aukast að sauðfjárbændur noti sýklalyf og jafnvel að óþörfu. Ég nota aldrei sýklalyf nema í brýnustu þörf og aldrei í sláturafurðir (ath. að ær með lamb telst til sláturafurða þar sem sýklalyf berast frá móður til afkvæmis bæði í kviði og í mjólk). Elsti sonur minn hefur sýklalyfja óþol og hefur hann fengið útbrot af sumu aðkeyptu kindakjöti þá veit ég þar hefur verið notað sýklalyf einhvern tíman á ferlinu.
Þetta er varhugavert og við sauðfjárbændur eigum að standa vörð um þessar vistvænu auðlind okkar sem lambakjötið er. Að sjálfsögðu þurfum við stundum að grípa inn í og gefa sýklalyf og hef ég sjálf gert það oftar en einu sinni en við eigum að athuga alla aðra kosti fyrst.
Eins finnst mér leiðinlegt að ekki er hægt að köggla lengur. Í gamla daga þá áttu ræktunarsamböndin eða búnaðarsambönd á hverjum stað kögglunarvél. Þá gátu bændur tekið fyrninga nú eða ruddaslátt og blandað það með fiskimjöli og kögglað kjarnfóður úr því. Þetta fæst vart orðið lengur og ekki lengur boðið upp á það að bændur geti gert þetta heima á bæ. Þetta er mun heilnæmara en að gefa kjarnfóður og fiskimjölið nýtist betur ef það gefið svona, eins er líka þarna hægt að nota hey sem kannski annars færi forgörðum. Eins finnst mér að lýsið ætti að vera aðgengilegra bændum. Ég gef alltaf lýsi í sauðburði bara rétt aðeins með og er það gott fyrir kindurnar, vistvænt, heilnæmt og það er framleitt á Íslandi, ekkert innflutt. En það er dýrt og ekki nógu aðgengilegt t.d eru umbúðirnar ekki nógu góðar eitthvað sem Lýsi hf ætti að skoða. Við kaupum svo steinefnablöndu, jaa eða margir bændur ég hef aldrei gert það, sem er innflutt en hvað með að vinna þang og þara í steinefnablöndur fyrir búfénað? Eitthvað sem þörungaverksmiðjan á Reykhólum ætti að athuga?
Við eigum svo margt gott á Íslandi sem vill gleymast. Við gleymum oft að lýta okkur nær í glampa stóru heimsveldanna hinu megin við hafið þar sem allt á að vera svo ódýrt og gott en er kannski vart samkeppnishæft í samanburði við það sem við eigum hér heima.
Við neytendur ættum kannski að krefjast meiri rekjanleika afurða. Það myndu svo sannarlega allir græða á því bændur sem og neytendur.
Lifið heil
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.