31.1.2008 | 00:28
Bóndinn í sjálfum sér
Það var kalt í dag, fór niður í 15 gráður hér í minni heimasveit á tímabili. Stafalogn var í allan dag og er enn þegar þessi orð eru rituð þó svo að veðurfræðingarnir hafa lofað okkur hríðarbyl nú í nótt. Sálartetur þessa bónda var eitthvað í uppnámi í dag einsog svo oft vill gerast. Svaf ég því meira en ég er vön og var með ólund og óyndi við allt og alla. Loksins dröslaði ég mér út í fjárhús (þá klukkan komin fast að hádeigi, hvers eiga gibbur geðhvarfa-bónda að gjalda?) Vaskur minn tryggi vinur fylgdi mér útí hús með tilheyrandi gleðilátum (enda þar bara þriggja mánaða hvolpur á ferð) og blasti Borgarfjörður þá við mér svo skínandi fagur í vetrabúningnum að geðið heldur bættist. Svo er í húsin kom þá tóku þessi góðu vinir mínir á móti mér með vingjarnlegu jarmi og vildu láta kjassa sig og strjúka og fá tugguna sína. Þá vissi ég af hverju ég hafði valið mér þennan starfsvetfang, þarna var allt sem ég þurfti. Öll sú sálarró sem fylgir því að klappa félögum sínum og tala við þá gefa þeim tuggu og fylgjast með þeim í algerum friði og ró að éta sitt hey er ómetanleg og fæst hvergi annarsstaðar (í það minnsta ekki fyrir mig). Ég dundaði mér lengi og dekstraði við gibburnar mínar hélt svo út í góða veðrið og gekk lítinn hring og dáðist af fjallafegurð Borgarfjarðar, en ég bý svo vel að sjá allan hringinn. Baula drottning Borgarfjarðar í hánorðri, Eiríksjökull og langjökull í norð-austri, Skessuhorn hinum megin við Hvítánna í austri og svo Hafnarfjallið mitt blíða í suðri. Einnig sé vel vestur á nes Snæfellsjökul og allan skagann vestur eftir.
Þegar inn kom var ég endurnærð og sálarhróið komið í mun betra jafnvægi. Ég hugsa að ég sé ríkasta manneskja í heimi því ég hef besta starf sem hugsast getur að vera bóndi.
Lifið heil
Athugasemdir
Stórkostleg fegurd!
Thetta finnur madur hvergi nema á góda gamla fróni.
Takk fyrir ad setja thessa mynd inn
Margrét Brynjars (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 12:53
Verði þér að góðu systir kær, á nokkrar enn af fallegum Borgarfirði í vetrarbúning og mun ég týna þær hér inn svona eftir nennu (falleg íslenska það!!) Gaman að sjá að þú ert búin að finna mig hér
Ólöf María Brynjarsdóttir, 31.1.2008 kl. 13:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.