1.4.2008 | 13:48
Konur í landbúnaði
Konur í landbúnaði þurfa að standa saman það er nokkuð ljóst. Ástæður þessa eru fjölmargar en má þó helst nefna að núna þegar hriggtir í stoðum landbúnaðarins í heild er samstaða nauðsyn. Við konur eru ansi máttugar, við erum fróðar og í mörgum tilfellum stjórnum við á bak við tjöldin. Nú er hins vegar tími til komin að koma fram fyrir tjöldin og taka höndum saman. Okkar eigin hagsmunafélag Bændasamtökin hafa gert margt gott fyrir bændur en nú á verðandi "sultar" tímum vilja þeir ekki af okkur konum vita. Það er eins og karlasamfélagið taki sig saman og segi "nú eru þið stelpurnar búnar að fá að leika ykkur nóg, nú er tíðin bara þannig að það er ekkert rúm fyrir leiki. Nú þurfa karlmennirnir að sinna málunum". Þeir eiga auðvita að taka okkur með, við bændur hvers kyn sem við erum þurfum öll að standa saman. Við þurfum að úthugsa nýjar og ódýrari leiðir til að framleiða vöruna okkar. Við þurfum að finna upp á hvernig við getum sjálf skapað hér heima þær afurðir sem við höfum flutt inn eins og t.d. áburð. Nú er nefnilega tími til að sýna samstöðu Íslendingum öllum til hagnaðar, ekki fyrir karlpening að berja sér á brjóst og segja "víkið frá konur nú þurfa mennirnir að ræða saman"!
Ég hef áður minnst á það hér að staða kvenna í stétt bænda er því miður bágborin. Við erum langt á eftir! Sem betur fer með miklum dugnaði góðra kvenna t.d. Sigríðar Bragadóttur á Síreksstöðum, Ágústu á Refstað og fleiri dugmikilla kvenna hefur margt gott unnist. Sigríður t.d. vann þann sigur á sínum tíma að gera Bændasamtökum Íslands það ljóst að kvennafélag sem hefði þann tilgang að styrkja konur til að starfa fyrir sitt stéttafélag (B.Í) væri nauðsyn. En í dag virðist þeir hafa gleymt því, þeir hafa um annað að hugsa strákarnir. Við konur erum samt enn hér og við látum ekki þagga niður í okkur, þeir skulu sjá okkur og heyra og taka tillit til þess sem við höfum að segja, bændum til heilla, Íslendingum til heilla!
Hugafars breyting er þörf, ekki bara hjá körlum líka hjá konum. Ég þekki fullt af konum sem segja "konur eiga ekkert að vera vasast í þessum félagsmálum" og sumar segja líka "það er ekki körlunum að kenna að konur séu ekki fleiri í félagsmálum, stjórnum og ráðum". Ég skil þetta sjónarmið mjög vel, ég var ein þessara kvenna. Svo opnuðust augu mín, og betur og betur sé ég að þótt það sé ekki körlum að "kenna" að hlutfall kvenna sé ekki hærra í nefndum og ráðum þá er það jú bara einu sinni svo að karlarnir eru heldur ekki að greiða leið kvenna. Þvert á móti setja þeir oftar en ekki steina í götu kvenna þannig að þær konur sem ná loks frama á þessu sviði hafa gengið grýtta leið og unnið oft tvöfalt meiri vinnu en karl í sömu aðstöðu. Ég er ekki á því að við eigum að hafa jákvæða mismunun ég tel að ávalt skuli vera valið hæfasta fólkið. Ég veit hins vegar að það er ekki gert í dag því ég hef oft séð gengið fram hjá frambærilegum og oft hæfari umsækjanda/frambjóðanda bara vegna þess eins að viðkomandi hafði ekki tippi!
Breytum þessu, tökum höndum saman konur, karlar af öllum stéttum og látum ekki valta yfir fólk bara vegna þess eins að það er ekki af réttu kyni!
Lifið heil
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.