Bændur fyrr og nú

Halla Rut bloggari og frjálslynd kona kom við á hinu blogginu mínu og gróf þar upp gamla færslu frá mér frá 2006 um bændur og sölu afurða þeirra. Þar tala ég um í kaldhæðni að margir bændur séu  að gera sig að aulum samtímans. Ég stend enn í dag við þessi orð mín frá 2006 en þar sem ég þroskast vonandi aðeins og vitkast með árunum þá hef ég komist að því að margir bændur eru einmitt á sömu skoðun og ég sjálf og vilja vinna afurðir sínar sjálfir í það minnsta eiga kost á því ef svo ber undir og margir bændur hafa þegar hafist handa. Ég var svo heppin að koma inn á lokasprettinum við stofnun félags sem ber nafnið Beint Frá Býli. Þetta félag er hagsmunafélag bænda sem vilja framleiða vöru sína frá A-Ö og berst það m.a fyrir því að einfalda löggjöf varðandi heimavinnslu og sölu afurða. Ef vel tekst til þá geta bændur með mun einfaldari hætti en nú virðisaukið vöru sína sjálfir og þar með aukið samkeppni sér og neytendum til hagsbóta. Ég læt færsluna frá 2006 fylgja hér með.

föstudagur, mars 31, 2006

Bændur eru þeir aular samtímans?

Í dag er allt til, ungt fólk getur orðið allt sem hugurinn girnist. En er hægt að verða bóndi? Skoðum það aðeins nánar. Ef ungur einstaklingur ákveður að verða bóndi í dag þá þarf hann fyrst að kaupa sér jörð. Þegar því er lokið þarf hann að kaupa sér kvóta (gefum okkur að hann kaupi húsakost með jörðinni), því næst þarf hann að verða sér út um bústofn og þegar þessu er öllu lokið þá getur hann farið að framleiða. Hann stritar í sveita síns andlits og hefur mikinn metnað. Hann fylgist vel með nýungum og prófar ýmislegt í þeim efnum til að framleiða betra kjöt og mjólk en nágranninn. Hann reiknar nákvæmlega út hversu mikið hann þarf að bera á túnin sín, hann ræður fólk í fjallagrasa tínslu til að bæta við heyið svo mjólkin verði heilnæmari, hann sérræktar upp tún með jurtum eins og refsmára og vallafoxgrasi, hann hefur grænfóðursakur sem hann velur í jurtir sem hann telur að séu betri en aðrar. Hann leggur mikla vinnu og kostnað í býlið sitt allt til þess að verða með sem besta markaðsvöru. En svo kemur að því að mjólkurbíllinn kemur til að hirða mjólkina og hvað gerist þá ?nei því miður væni, þín mjólk er ekkert merkilegri en mjólk nágrannans, þú hefur ekkert val, þú getur ekki selt mjólkina þína neitt annað og þú getur vissulega ekki selt hana sjálfur eða markaðssett hana sjálfur, sorry félagi!? Sama saga endurtekur sig þegar kemur að slátrun. Dilkarnir hans eru teknir og slátrað og svo eru afurðirnar skornar niður og allir skrokkar settir í eins pakkningar og engin leið fyrir kúnnann að kaupa af þessu metnaðarfulla bónda.

Allstaðar annarsstaðar í þjóðfélaginu er samkeppni. Hún þykir af hinu góða. Fyrirtæki leggja meiri metnað til að vera með aðeins betri vöru en hitt fyrirtækið sem býður sambærilega vöru. En í bændastéttinni ríkir einn fyrir alla og allir fyrir einn, eða svo gott sem. Ég hef frábæra hugmynd af markaðssetningu kindakjöts, ég vil ekki deila hugmynd minni með neinum öðrum því ég vil náttúrulega geta notið góðs af því að hafa lagt vinnu mína og tíma í að þróa þessa hugmynd. Einnig þróa ég vöruna eftir markaðshugmyndinni. En svo kemur babb í bátinn ég má ekki vinna vöruna mína sjálf þ.e. ég má ekki slátra sjálf og pakka kjötinu mínu og selt það svo til þess markaðar sem ég hef sjálf kosið að senda vöruna mína á. Það bara má ekki! Þannig að öll sú vinna sem ég hafði lagt í að þróa vöruna væri fyrir bí og markaðshugmyndin væri ónýt. Það versta er að bændum samtímans virðist standa á sama. ?Já já það er fínt að fá beingreiðslur frá ríkinu og í staðinn setja mjólkina mína með allri annarri mjólk á landinu og láta svo stórfyrirtæki sjá um að búa til og markaðssetja vöru, úr mjólkinni, og hirða svo náttúrulega allan gróðann líka. Pabbi gerði þetta og afi og það hefur virkað í öll þessi ár, best að vera ekkert að breyta út af vananum.? Væri ekki frekar ráð að mega framleiða sína eigin vöru, markaðssetja hana sjálfur og fá svo gróðann líka? Nota þann pening sem færi í kvótaverð í að markaðsetja vöruna? Vera sinn eigin gæfu smiður ekki sigla bara þann lygna sjó sem einkennir landbúnað Íslands í dag? Haldið að vínbændur í Napadalnum væru ánægðir með það að það kæmi bara vínbíll tvisvar í viku og safnaði saman öllu víni í Kaliforníu og keyrði til fyrirtækis sem borgaði öllum vínbændum sama verð á lítrann og stór græddi svo sjálft á því að selja dýr kaliforníu vín út allan heim? Alveg sama hversu mikinn metnað eða lítinn viðkomandi bóndi legði í sína framleiðslu?

Þetta ástand í Íslenskum landbúnaði er náttúrulega bara fáránlegt. Ef ungur maður yrði bóndi í dag hefði hann nánast ekkert um það að segja hvort hann geti stórgrætt á því eður ei. Hann verður áskrifandi á laununum sínum frá íslenska ríkinu og hefur sama sem ekkert um það að segja hvað verður um framleiðsluna sína. Halda þeir sem halda um stjórnartaumana að þetta sé aðlaðandi starfsumhverfi fyrir íslenskt ungmenni? Langar fólki að verða bóndi og að strita til að aðrir geti grætt á afurðunum þeirra?
Eru bændur ekki bara að láta fífla sig? Eru þeir ekki bara aular samtímans? Ég held það.

Lifið heil

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

blessuð ég fann bloggið þitt og langaði bara að kvitta flott síða . má ég kannski koma aftur í heimsókn til þín seinna bara svona þegar þú ert heima??bæ Gréta

Gréta (IP-tala skráð) 8.4.2008 kl. 19:51

2 Smámynd: Ólöf María Brynjarsdóttir

Sæl Gréta mín, gott að þú fannst mig á veraldarvefnum . Þú ert alltaf velkomin í heimsókn í sveitina og ég er nú mest megnis heima um allar helgar. Það var gaman að rekast á þig í leikskólanum í gær og vonandi hafðir þú gaman að því að kynna þér starf leikskólakennara en ég er viss um að þú átt eftir að vera í frábær í hverju sem þú tekur þér fyrir hendur í framtíðinni hvort sem það er að starfa með börnum eða eitthvað annað.

Ég ætla nú að fara að drífa mig aftur í heimsókn til þín, mömmu þinnar og Ragnars og svo kemur þú bara vonandi sem fyrst aftur í heimsókn til mín í sveitina .
Kær kveðja
Olla 

Ólöf María Brynjarsdóttir, 9.4.2008 kl. 09:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband