Bóndinn í sjálfum sér

IMG00281Það var kalt í dag, fór niður í 15 gráður hér í minni heimasveit á tímabili. Stafalogn var í allan dag og er enn þegar þessi orð eru rituð þó svo að veðurfræðingarnir hafa lofað okkur hríðarbyl nú í nótt. Sálartetur þessa bónda var eitthvað í uppnámi í dag einsog svo oft vill gerast. Svaf ég því meira en ég er vön og var með ólund og óyndi við allt og alla. Loksins dröslaði ég mér út í fjárhús (þá klukkan komin fast að hádeigi, hvers eiga gibbur geðhvarfa-bónda að gjalda?) Vaskur minn tryggi vinur fylgdi mér útí hús með tilheyrandi gleðilátum (enda þar bara þriggja mánaða hvolpur á ferð) og blasti Borgarfjörður þá við mér svo skínandi fagur í vetrabúningnum að geðið heldur bættist. Svo er í húsin kom þá tóku þessi góðu vinir mínir á móti mér með vingjarnlegu jarmi og vildu láta kjassa sig og strjúka og fá tugguna sína. Þá vissi ég af hverju ég hafði valið mér þennan starfsvetfang, þarna var allt sem ég þurfti. Öll sú sálarró sem fylgir því að klappa félögum sínum og tala við þá gefa þeim tuggu og fylgjast með þeim í algerum friði og ró að éta sitt hey er ómetanleg og fæst hvergi annarsstaðar (í það minnsta ekki fyrir mig). Ég dundaði mér lengi og dekstraði við gibburnar mínar hélt svo út í góða veðrið og gekk lítinn hring og dáðist af fjallafegurð Borgarfjarðar, en ég bý svo vel að sjá allan hringinn. Baula drottning Borgarfjarðar í hánorðri, Eiríksjökull og langjökull í norð-austri, Skessuhorn hinum megin við Hvítánna í austri og svo Hafnarfjallið mitt blíða í suðri. Einnig sé vel vestur á nes Snæfellsjökul og allan skagann vestur eftir.

Þegar inn kom var ég endurnærð og sálarhróið komið í mun betra jafnvægi. Ég hugsa að ég sé ríkasta manneskja í heimi því ég hef besta starf sem hugsast getur að vera bóndi.
Lifið heil


Mokað undir

P1002945Já enn á ný heyri ég umræðu þar sem verið að tala um að ríkið moki undir rassgatið á bændum með auknum kostnaði fyrir hinn almenna íbúa. Það er nokkuð ljóst að við sem að landbúnaði stöndum þurfum að láta það heyrast betur að ríkið er ekki að gera bændum hærra undir höfði með þessu heldur neytandanum. Ríkið er að niðurgreiða landbúnaðarafurðir til neytenda með því að koma inn í ferlið með fjármagn áður en afurðin lendir á diski neytandans. Þannig að Íslenska ríkið er því að moka undir hinn almenna neytanda ekki bændur.

Landbúnaður er hverju sjálfstæðu ríki lífsnauðsynlegur. Það er vissulega auðsótt mál að flytja inn allar landbúnaðarafurðir og leggja þar með bændastéttina af. Jafnvel væru það eitthvað ódýrari afurðir? (Sem ég er reyndar fullviss um að svo sé ekki, hef búið erlendis það lengi að sambærileg vara og hérlendir bændur eru með á boðstólunum kostar töluvert meira erlendis hvað þá ef flutningskostnaður er lagður ofan á) Ok gefum okkur að við flytjum inn allar landbúnaðarafurðir. Svo kemur stríð, heimstyrjöld jafnvel eins og við þekkjum (þau okkar sem tóku eftir í sögutímum) að hafi ekki einu sinni heldur tvisvar riðið yfir á síðustu öld. Við erum eyland hvert sækjum við þá matinn okkar? Ætlum við kannski að leggjast á beit?
Landbúnaður er frumþörf hverrar þjóðar! Svo einfalt er það. Við megum ekki gefa meiri hagsmuni fyrir minni, við verðum að kynna okkur staðreyndir málsins áður en við förum að gaspra um hlutina á opinberum vetfangi.

Ég skora á ykkur öll sem þessi orð lesa að virkilega kynna ykkur hvað það er sem Íslenskur landbúnaður gerir fyrir okkur. Prófið bara að ímynda ykkur að lambakjötið sé Nýsjálenskt og búið að menga himinn og höf til að flytja það til okkar. Ímyndið ykkur að gúrkan, tómatarnir, paprikan og fleiri grænmetistegundir séu Hollensk og sé búið að menga himin og haf, jafnvel Hollenska akra líka til að færa okkur það. Ímyndið ykkur að nautakjötið ykkar sé stera-sýklalyfja-hormónakjöt frá bandaríkjunum þar sem ungnaut eru alin upp í mörg þúsund dýra hjörðum og gefin fullt af kemískum efnum með fóðrinu eins og stera, vaxtahormóna og sýklalyf því þar er það svo mikilvægt að þau vaxi sem hraðast og skili sem mestu á kílóið og þar sem dýrin eru í svo stórum hjörðum þá má eitt dýr alls ekki sýkjast og því hrúgað í þau öll sýklalyf. Ef við drepum landbúnaðinn þá drepum við okkur sjálf um leið og við þau orð stend ég!
Lifið heil


Lifandi landbúnaður

IMG00274Já minn landbúnaður er svo sannarlega lifandi. Gibburnar mínar voru gífurlega hressar með að komast út í morgun og viðra sig eftir allt inni hangsið vegna slæms tíðarfars. Hoppuðu þær og kröfsuðu, köstuðu upp rassinum og léku sér einsog lömb þrátt fyrir að vera í vetur ull (fyrir þá sem ekki eru vel inní sauðfjárrækt þá ganga kindurnar mínar s.s. í ullinni allan veturinn og eru heilrúnar að sumri en ekki rúnar inn í nóvember og svo snoðið tekið í mars einsog gengur og gerist almennt). Ég fór svo til tannlæknisins míns í dag en hún hefur oft verslað af mér kjöt. Hún fór að segja mér hvað hún var nú ánægð með kjötið, gott á bragðið og passlegt í fitu og ekki skemmdi fyrir hvað íslenskt lambakjöt væri nú vistvæn og heilnæm vara. Jú sagði ég það væri alveg rétt en því miður er það að aukast að sauðfjárbændur noti sýklalyf og jafnvel að óþörfu. Ég nota aldrei sýklalyf nema í brýnustu þörf og aldrei í sláturafurðir (ath. að ær með lamb telst til sláturafurða þar sem sýklalyf berast frá móður til afkvæmis bæði í kviði og í mjólk). Elsti sonur minn hefur sýklalyfja óþol og hefur hann fengið útbrot af sumu aðkeyptu kindakjöti þá veit ég þar hefur verið notað sýklalyf einhvern tíman á ferlinu.

Þetta er varhugavert og við sauðfjárbændur eigum að standa vörð um þessar vistvænu auðlind okkar sem lambakjötið er. Að sjálfsögðu þurfum við stundum að grípa inn í og gefa sýklalyf og hef ég sjálf gert það oftar en einu sinni en við eigum að athuga alla aðra kosti fyrst.
Eins finnst mér leiðinlegt að ekki er hægt að köggla lengur. Í gamla daga þá áttu ræktunarsamböndin eða búnaðarsambönd á hverjum stað kögglunarvél. Þá gátu bændur tekið fyrninga nú eða ruddaslátt og blandað það með fiskimjöli og kögglað kjarnfóður úr því. Þetta fæst vart orðið lengur og ekki lengur boðið upp á það að bændur geti gert þetta heima á bæ. Þetta er mun heilnæmara en að gefa kjarnfóður og fiskimjölið nýtist betur ef það gefið svona, eins er líka þarna hægt að nota hey sem kannski annars færi forgörðum. Eins finnst mér að lýsið ætti að vera aðgengilegra bændum. Ég gef alltaf lýsi í sauðburði bara rétt aðeins með og er það gott fyrir kindurnar, vistvænt, heilnæmt og það er framleitt á Íslandi, ekkert innflutt. En það er dýrt og ekki nógu aðgengilegt t.d eru umbúðirnar ekki nógu góðar eitthvað sem Lýsi hf ætti að skoða. Við kaupum svo steinefnablöndu, jaa eða margir bændur ég hef aldrei gert það, sem er innflutt en hvað með að vinna þang og þara í steinefnablöndur fyrir búfénað? Eitthvað sem þörungaverksmiðjan á Reykhólum ætti að athuga? 

Við eigum svo margt gott á Íslandi sem vill gleymast. Við gleymum oft að lýta okkur nær í glampa stóru heimsveldanna hinu megin við hafið þar sem allt á að vera svo ódýrt og gott en er kannski vart samkeppnishæft í samanburði við það sem við eigum hér heima.
Við neytendur ættum kannski að krefjast meiri rekjanleika afurða. Það myndu svo sannarlega allir græða á því bændur sem og neytendur.
Lifið heil


FLUGhált

Minnir mig á gamlan Hafnfyrðingabrandara LoL.

Haldið ykkur bara heima og lesið góða bók, hvort sem er FLUGhált allstaðar W00t.
Lifið heil


mbl.is Varað við flughálku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt ófært í Borgarfirði

Já það er víða ófært í morgunsárið. Hér í Borgarfirði hefur skólahaldi verið aflýst og ekki hefur fólk komist til vinnu. Hér sér ekki út úr augum vegna ofankomu og skafrennings. För foreldra minna frá Borgum og niður í Borgarnes tók yfir 50 mínútur leið sem tekur vanalega um 10 mínútur eru þau þó á breyttum og vel útbúnum jeppa (ekkert slyddu neitt bara 38"). Undir fjallinu er ekkert skyggni og hafa menn samt sem áður álpast af stað og sitja þar af leiðandi fastir, björgunarsveitin er víst þar nú að aðstoða menn.

Þorri minnir á sig og kemur með hvelli og er það viðeigandi við búum jú í landi þar sem náttúruöflin eru ríkjandi og gott að minna okkur á það, þrátt fyrir alla okkar tækni og tól, að sýna Þorra virðingu. Ég ætla alla vega að blóta þorra í kvöld og fagna komu hans enda er heyfang nóg hjá mér og útséð með það að ég þurfi ekki að þreyja þorra.
Lifið heil


mbl.is Viðvörun til vegfarenda enn í gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumkunarverðir framsóknarmenn?

Veit ekki hvort ég vorkenni framsóknarmönnum mikið. Mér finnst nú Björn Ingi hafa hálfpartinn komið sér sjálfur í þessa aðstöðu. En ég hafði haft gaman að því að vita hvort fleiri innan vébanda flokksins fengu fatakaupastyrki upp á milljón eða hvort Bjössi sé sá eini sem hefur svona dýran smekk. Það er nú sagt að framsókn sé bændaflokkur og við bændur erum jafn misjafnir og við erum margir en það er augljóst mál að þessi bóndi sem hér ritar hefur aldrei keypt sér föt fyrir milljón á ársgrundvelli. En ég er kannski bara svo púkó...... ætti kannski að ganga í raðir framsóknarmanna?
Lifið heil

 


mbl.is Framsóknarmenn slíðri sverðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel valin/nn

Já veit ekki alveg hvað mér á að finnast um svona. Ekki það að ég uni ekki Steingrími þessa stöðu, hún fer honum vel enda hann hugsjónamaður af bestu gerð. Veit ekki alveg hvort þessi kynja umræða öll sé af hinu góða. Hvaða máli skiptir hver sé valin til verka ef ávalt er leitað til þess sem hæfastur þykir? Því miður virðist raunveruleikinn vera annar það er ekki bara oft gengið fram hjá konum heldur er líka oft gengið fram hjá körlum. Þetta snýst nefnilega ekki um kyn, þetta snýst um hvern þú þekkir, hverja manna þú ert og hvort þú hafir nokkuð hneykslað liðið um of á síðasta misseri. Nýjustu embættisráðningar leiða þennan ljóta sannleik í ljós.

Þessi jafnréttisnefnd Evrópuráðsþingsins hefur komið mörgu góðu til leiða. Hún berst gegn mannsali og vændi m.a og er mjög þörf. Hins vegar gleymist oft í umræðu um jafnréttindi að þau eru mannréttindi. Mannréttindi fólks, beggja kynja. Jafnréttindi eru ekki bara kvenréttindi, gleymum því ekki.
Annars óska ég Steingrími til hamingju með nýju stöðuna og ég vona að jafnréttismál rísi undir hans formensku í þessari nefnd.
Lifið heil


mbl.is Steingrímur J. fyrsti karlinn til að gegna formennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hækkað verð á áburði

Já nú ætlar fyrstu birgjarnir að fara að birta verðskrá sína fyrir tilbúin áburð. Talað um minnst 40% hækkun frá því í fyrra og allt að 60% hækkun. Talað var við Ríkharð Brynjólfsson prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands í fréttum ríkisútvarpsins í síðustu viku og sagði hann að þessi hækkun hafði einungis eitt í för með sér, hækkun á verði búfjárafurða. Ég spyr hvernig ætla bændur að hækka verð á vörum sínum? Við fáum senda heim lista um hvað afurðarstöðvarnar borga og ef einhverstaðar er samráð þá er það þar því það munar einungis 2 krónum á hæsta og lægsta verði til bænda. Ég get sem dæmi ekki hringt í afurðarstöð og sagt "já ég hef voðalega gott lambakjöt til sölu, ég hef stritað í sveita míns andlits og gert mitt besta til að skepnan sé sem boðlegust neytendum. Ég gef henni ekki sýklalyf, ég gef vistvænt fóður, ég hef valið hið besta í ræktuninni og ég vil fá 670 krónur fyrir kílóið." Nei þetta virkar ekki svona afurðarstöðvar gefa út verð og þú velur svo hvert þú sendir afurðirnar þínar og neytandinn fær aldrei að vita að einmitt mitt kjöt er það besta þetta haustið. Eins er þetta með kúabændur, það þýðir lítið fyrir þá að leita tilboða í mjólkur eða kjötframleiðslu sína. Eina vopn sem bændur hafa í raun er að taka höndum saman og neyta að selja afurðir sínar til afurðarstöðva en þá kemur nú það inn að við megum ekki undir nokkrum kringumstæðum vinna eða selja okkar vörur beint frá býli því allt laga umhverfi hamlar því (sem er svo allt önnur umræða útaf fyrir sig). Ég spyr því aftur hvernig eiga bændur að hækka verð á afurðum sínum?

Komið hefur til tals að ríkið styrki neytendur (ath. NEYTENDUR!!) í þessu máli með því að niðurgreiða áburð til bænda og halda afurðarverði þannig í lágmarki. Já já allt gott og blessað með það ég hef hinsvegar aðrar hugmyndir. Í stað þess að niðurgreiða tilbúin áburð til bænda sem nota hvort sem er alltaf alltof mikið af honum því margir þeirra nenna hreinlega ekki að gera áburðaráætlanir, rækta reglulega og taka heysýni, að þá frekar niðurgreiða ræktunar kostnað á túnum, taka út kostnað fyrir heysýnatöku og halda betri og fleiri námskeið um gerð áburðaráætlanir. Þetta skilar sér margfalt til baka og á mun fleiri vegu en niðurgreiðslur á áburði mundi gera. Þetta skilar sér í heilnæmari afurðum, verndun umhverfisins (á margan hátt, þarf ekki að flytja inn áburð ergo engin olíubrennsla á skipum, köfnunareituráhrif í ám og sjó væru úr sögunni o.m.fl.) mundi styrkja atvinnuveg (það þarf mannskap til að greina heysýni og margir bændur nota verktaka í allan eða hluta til við ræktun túna) sé líka fyrir mér þar sem jarðvegur er þegar ónýtur vegna áburðargjafar eða rýr að öðrum hætti þannig að búfjáráburður dugar ekki til að þar sé hægt að nota bláþörunga og getið þið hvað!! Það er þörungaverksmiðja á Íslandi!! Og þörungar eru vistvænir og hafa ekki eins skaðleg áhrif á lífríki í ám og vötnum líkt og köfnunarefni gera.

Græða ekki allir á þessu bæði bændur og neytendur og síðast en ekki síst jarðríkið? Er þetta ekki skoðunarvert? Hugsið um það
Lifið heil


Nýtt upphaf

P1002246Já stundum þarf maður að taka þátt í þjóðmála-umræðunni og hef ég svo sem gert það lengi á mínu persónulega bloggi en nú er komin tími til að vera meira "áberandi" og kem ég því til með að segja mínar skoðanir á opinberum málum hér en halda hinu blogginu sem fyrr fyrir mig og mína nánustu.

Ég sem skeiða nú fram á ritvöllinn er bóndi í Borgarfirði og sem slíkur hef ég mikinn áhuga á landbúnaðarmálum. Ég er einnig formaður grasrótarhreyfingarinnar Lifandi Landbúnaðar sem er samtök kvenna í landbúnaði. Ég hef verið "sökuð" um sterkar skoðanir og mun ég viðra þær hér þegar ég get og má vera að.
Ég vona að þið sem lesið munið hafa gaman að.
Lifið heil


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband